Smásögur

Smásögur Jakobínu birtust í ýmsum tímaritum og flestar komu þær út þremur söfnum; það fyrsta var Púnktur á skökkum stað sem kom út árið 1964, Sjö vindur gráar komu árið 1970 og loks Vegurinn upp á fjallið árið 1990. Um þær segir Dagný Kristjánsdóttir prófessor í fjórða bindi Íslenskrar bókmenntasögu Máls og menningar (2006):

„Jakobína var mikill meistari smásagnaformsins […] og í smásögunum eru oft ydduð viðfangsefni sem rædd eru nánar í skáldsögunum, eins og sambandsleysi hjónanna í tungumálinu í smásögunni Stellu, pólitísk og siðferðileg hentistefna í smásögunni Konkordíu og viðhorf eldri kynslóðarinnar til hinnar góðu eiginkonu í paródíunni Móðir, kona, meyja.“ (bls. 636)

Í smásögum sínum, sem og skáldsögum, veitti Jakobína lesandanum oftar en ekki innsýn í huga sögupersóna sem eiga í einhvers konar tilfinningalegu uppgjöri og henni var oft  hrósað fyrir djúpa og vandaða persónusköpun. Gagnrýnandinn Erlendur Jónsson hafði til dæmis þetta að segja um sögur hennar í Lesbók Morgunblaðsins 14. júní árið 1970:

„Jakobínu tekst oft að blása lífsanda í söguhetjur sínar og skapa þeim svo mannlegar tilfinningar, að þær verða eðlilegar og minnisstæðar eins og lifandi fólk; og þó svo, að örlög þeirra verða hversdagsleikanum áleitnari.“ (bls. 3)

Í smásögunum prófaði Jakobína sig auk þess áfram með það sem færa má rök fyrir að sé eitt helsta höfundareinkenni hennar: tilraunir með mismunandi frásagnarform þar sem tal eða hugsanir sögupersóna fá að flæða og bera söguna uppi. Um þetta segir Ástráður Eysteinsson prófessor í greininni „Þetta er skáldsaga“ í Umbrotum (1999):

„Jakobínu hefur verið hrósað sem snillingi að lýsa hugrenningum persóna sinna, en ástæða er til að minna á að líklega er samtalið sá hluti prósaritunar sem Jakobína hefur ræktað umfram flesta aðra íslenska höfunda. Ekki aðeins er Snaran öll annar helmingur samtals, heldur eru heilu kaflarnir í Lifandi vatninu – – – látlaus samtöl.“ (bls. 222)

Af tuttuguogþremur smásögum Jakobínu sem komu út í fyrrnefndum þremur smásagnasöfnum eru að minnsta kosti átta eingöngu byggðar á tali persóna, ýmist eintali eða samtali tveggja persóna, og auk þess eru þrjár til fjórar sögur til viðbótar sem erfitt er að ákveða hvort eru frásagnir sögumanns eða innra eintal sögupersóna. Óhætt er að fullyrða að þessi frásagnaraðferð á stóran þátt í þeirri djúpu og vönduðu persónusköpun sem skáldkonunni hefur gjarnan verið hampað fyrir.

„Maður uppi í staur“ í Púnktur á skökkum stað (brot)

Hvað skyldi hann annars vera að gera þarna uppi? Þetta er glæfralegt að sjá! Staurinn riðar og skelfur, þessi líka dólgur. Hvað var líka verið að tylla honum þarna, uppi á brekkubrún? Það hefði áreiðanlega mátt velja honum betri stað. – En mig varðar ekkert um þetta. Ég hef nóg annað um að hugsa. Ekki er dagurinn of langur. Nóg er að starfa. – En, – ef staurinn væri nú illa festur? Þetta voru unglingsgrey, sem grófu fyrir honum í sumar. Mig minnir að holan væri grunn. Alltof grunn fyrir þetta bákn. Það er grjót undir, – eða möl. Þeir voru ekki með svo merkileg verkfæri, það er ekki víst að þeir hafi grafið nógu djúpt. Það var feykilega heitt í veðri –. En mér kemur það ekkert við. Ekki vitund. – –“ (bls. 132)

„Vegurinn upp á fjallið“ í samnefndu smásagnasafni (brot)

Konan lítur út um gluggann, þegar bíllinn rennir í hlað, sér karlmann stíga út og ganga í átt til dyranna. Prjónarnir hætta að tifa, falla niður í kjöltu hennar og hún getur ekki sinnt þeim, skyggnir hönd fyrir auga og horfir á manninn ganga í átt til dyranna. Getur það verið, að þetta sé hann eftir öll þessi ár? Varla – en samt – fasið – göngulagið – svo ótrúlega líkt. Það er hann. Ber ekki einu sinni að dyrum, gengur beina leið inn í eldhúsið til hennar, þekkir allt, eins og hann hefði verið hér á hverjum degi. Hún hirðir ekkert um þó prjónarnir detti í gólfið, þegar hún rís á fætur. Og hann heilsar henni glaðlega með kossi og snertir öxl hennar um leið. Eins og – endur fyrir löngu. – Sæl mamma! Hún muldrar eitthvað á móti, getur ekki varist klökkva inni í brjóstinu. Langar að faðma hann að sér, gerir það ekki. – Þú – ert snemma á ferð, tekst henni loks að segja. Hún ætti að segja eitthvað annað, eitthvað sem gæfi í skyn það sem berst um í brjósti hennar, en finnur ekki orð –“ (bls. 31)

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s