Skáldsögur

DægurvísaDægurvísa

Með skáldsögunni Dægurvísu (1965) festi Jakobína sig í sessi sem þjóðþekktur rithöfundur og bókin var tilnefnd fyrir Íslands hönd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1967. Dægurvísa var endurútgefin í skólaútgáfu árið 1978 með formála eftir Jóhönnu Sveinsdóttur.

Í Dægurvísu, sem eins og titillinn bendir til gerist á einu dægri  – frá morgni til kvölds dag nokkurn í maí – er lesendum sýnt inn í hugarheim tíu sögupersóna sem allar búa í sama húsi í Reykjavík eða eru þar gestkomandi. Við hver kaflaskil er skipt um sjónarhorn og horfið frá einni persónu til annarrar. Frásagnarform Dægurvísu var nýstárlegt og nokkuð sérstakt á þeim tíma þegar hún kom út en hún er það sem kallað er hópsaga. Helstu einkenni hópsögu eru að þar er engin ein aðalpersóna heldur fjallar sagan um hóp fólks sem tengist félagslega á einhvern hátt, til dæmis býr á sama stað eða vinnur saman. Oft er lögð áhersla á sameiginleg einkenni og vandamál persónanna, sem og ólík viðbrögð þeirra við sömu aðstæðum, og þannig er ólíkum persónum lýst út frá afstöðu þeirra til heildarinnar. Sögupersónur Dægurvísu eru af ýmsum þjóðfélagsstéttum, á ólíkum aldri og með ólíkan bakgrunn. Sumar  eru tengdar fjölskylduböndum, aðrar þekkjast lítið eða ekkert, en allar eiga þær þó sameiginlegt að þurfa að gera upp hug sinn varðandi mótmælaskjal gegn vígbúnaðarkapphlaupinu sem gesturinn Óli gengur með á milli íbúða. Allar standa persónurnar auk þess á einhvers konar krossgötum þar sem þær þurfa að taka mikilvægar ákvarðanir.

Dægurvísa er kannski fyrst og fremst saga um fólk, ákvarðanatökur og afstöðu þess til lífsins – samskipti þess hvert við annað og hversdagslegt líf – líkt og eftirfarandi textabrot sýna:

– […] Manstu hvað oft þú grézt vegna mín?
– O-o, blessaður vertu, ég var bara krakkakjáni, segir hún og er orðið vitund órótt.
– Og hvað ertu þá núna?
– Bara ég. Sérðu mig ekki?
– Jú, Svava. Þú ert ennþá fallegri en þá, og mörgum sinnum þrárri. Hvers vegna giftist þú honum?
Þetta er eins og árás, nei, það getur nú gengið full-langt!
– Hiddi, segir hún sefandi, – við skulum tala um allt annað. Hjónaband mitt er mitt einkamál.
– Nei, fari það kolað, ekki fyrir mér, segir hann reiðilega. – Hlustaðu nú á mig, Svava, heldurðu að ég hafi komið til þess eins að drekka hjá þér kaffi, eftir öll þessi ár?“ (bls. 84)

Mikið asskoti er maður orðinn gamall! Sú var þó tíðin, að maður var ekki lengi að hypja upp um sig haldið. Ekki á svona morgni, í fjórðu viku sumars, komið fram á sauðburð og hagi farinn að litka. Líklega hefði maður nú verið farinn að líta framan í þær, blessaðar, verið rétt í þann mund að koma í bæinn og fá rjúkandi á móti sér ilminn af nýlöguðu morgunkaffinu hjá henni Möngu sálugu. Já, hún Manga sáluga, hún var nú ekki fyrir þessar bévaðar ekkisens morgunlegur, sem kvenfólk er farið að tíðka nú til dags.“ (bls. 19-20)

Styrkum höndum dregur hún fyrir gluggann og afklæðist. Síðan leggst hún útaf og tekur drenginn sinn í fangið. Og hendur hans leita andlits hennar, smáar, fálmandi hendur í leit að öryggi. Hún þrýstir þeim að andliti sínu og er þakklát fyrir að eiga hann. Kannski hættir hann að sífra þegar hann er kominn á gras. Hún ætlar að vera honum góð, svo góð, að honum detti aldrei í hug að horfa á aðrar manneskjur eins og orma.
– Oggastrákurinn hennar mömmu, hvíslar hún blítt í sofandi eyra hans. En hún hvíslar svo lágt, að hann losar ekki svefninn. Enda ætlast hún ekki til þess. – Þröstur syngur rétt utan við gluggann hennar. Því það er vor. Og hann má ekki eyða nokkurri stund til ónýtis.
Lifa – lifa, syngur hann fullum rómi. Og jafnvel stúlkan skilur það, gegnum fróandi svefnhöfgann.“ (bls. 173-174)

Snaran

Snaran

Snaran (1968) vakti allt önnur viðbrögð lesenda og gagnrýnenda en Dægurvísa sem kom út þremur árum fyrr, enda er Snaran eindregin og beinskeytt pólitísk ádeila á meðan Dægurvísa dregur upp margbreytilega mynd af þjóðlífinu, þótt vissulega megi þar greina pólitískan boðskap. Með tíð og tíma hefur þó sannast að Snaran var á margan hátt sannspá og sagan á erindi við lesendur enn þann dag í dag (sjá t.d. þetta blogg). Hún var endurútgefin í kiljuútgáfu árið 2009.

Segja má að þrennt einkenni Snöruna fyrst og fremst. Í fyrsta lagi er hún framtíðarskáldsaga, í öðru lagi er hún dystópía eða framtíðarmartröð og í henni felst sterk pólitísk ádeila, og í þriðja lagi  er frásagnarform hennar mjög sérstakt.

Snaran gerist um 20 árum eftir að hún er skrifuð, þ.e. á níunda áratug síðustu aldar. Þar segir frá sópara í verksmiðju sem er í eigu erlendra auðhringja og stjórnað af Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum. Íslendingarnir sem vinna í verksmiðjunni eru allir undirmenn og stéttskiptingin er skýr, erlend áhrif eru mikil og stóriðja hefur hreiðrað um sig á íslenskum vinnumarkaði. Skáldsagan er ádeila á hersetu og stóriðju en ekki síður á firringu og ábyrgðarleysi hins almenna borgara sem holdgervist í sóparanum, ógeðfelldri persónu sem axlar enga samfélagslega eða pólitíska ábyrgð heldur kemur henni yfir á aðra. Ádeilan felst því ekki aðeins í dystópískri framtíðarsýn þar sem Íslendingar hafa gengist undir erlent auðvald og hafið stóriðjustefnu heldur einnig – og jafnvel fyrst og fremst – í persónu sóparans og skoðunum hans.

Hið sérstæða frásagnarform er fólgið í því að Snaran er frá upphafi til enda samtal sóparans og samstarfsmanns hans. Samstarfsmaðurinn svarar sóparanum en lesandinn fær aldrei að heyra í honum en ræður svör hans út frá viðbrögðum sóparans. Þetta frásagnarform hefur verið kallað dramatískt eintal og er vel þekkt í ljóðlist og leikritun en mjög sjaldgæft er að heilar skáldsögur séu dramatísk eintöl frá upphafi til enda.

Hér á eftir má sjá nokkur dæmigerð „samtöl“ sóparans og samstarfsmannsins:

Áfram maður, áfram, ertu sjónlaus? Líttu undir bekkskrattann þarna! Hvað sýnist þér vera þar? Það dugar ekki að slóra, maður verður að vinna fyrir kaupinu. Annars – þú manst hvernig fór fyrir Konna. Náttúrlega reif hann kjaft. En þó hann hefði ekki rifið kjaft. – Hvað kom honum líka við hvernig pallarnir voru frágengnir? (bls. 9 )

Hvernig stóð á því? Ja, það var nú andskoti leiðinlegt – hún varð fyrir slysi, eða – ja, einskonar slysi. Ég hefi alltaf kennt mér um það, en hvernig átti mig að gruna –. Og hvað gat ég gert? Ég var ekki einu sinni viss um að það væri hún – það gat eins verið einhver af hinum stelpunum – og ef þeir hefðu beitt byssum – eða bara hnífum – við höfðum ekkert, ekki svo mikið sem vasahníf. Þú skilur að þessir strákar, hermennirnir, þeir voru alveg vitlausir af leiðindum og heimþrá og öllu mögulegu, það gátu allir verið dauðir heima hjá þeim – og þeir hér, en fyrst og fremst var það kvenmannsleysið, sem ætlaði þá lifandi að drepa, og hér voru engin hóruhús eins og heima hjá þeim, þar sem menn geta skotizt inn og létt á sér þegar þeir þurfa. (bls. 54-55)

 

Lifandi vatnið – – –

Þriðja skáldsaga Jakobínu, Lifandi vatnið – – –, kom út árið 1974 en hafði verið í vinnslu að minnsta kosti síðan árið 1969 þegar höfundurinn sótti um starfslaun úr Launasjóði rithöfunda. Í uppkasti að umsókn sem fannst í gögnum Jakobínu stendur:

„Verkefni: Skáldsaga. Alllöng, form og stíll örðugt viðfangs og krefst því næðis og vinnufriðar. Hef hugsað mér að dvelja í Rvík í vetur. Geri þó ekki ráð fyrir að geta lokið verkinu á skemmri tíma en hálfu öðru ári, enda vinnuþol mitt mjög takmarkað.“

Útkoman varð lengsta skáldsaga höfundarins og form hennar og stíll er sannarlega metnaðarfullur.

Í Lifandi vatninu – – – segir frá Pétri Péturssyni verkamanni sem stingur einn daginn af frá fjölskyldu og vinnu í Reykjavík og fer með rútu út á land að heimsækja bernskuslóðirnar. Pétur býr í samfélagi sem einkennist af firringu og hlutgervingu. Engin bein tengsl eru á milli framleiðslu og neyslu, einstaklingurinn er eins og hlutur án vitundar og tilfinninga, stofnanir bera ábyrgð á geðheilsu manna og meirihluti fólks trúir því að ríkjandi ástand sé hið eina hugsanlega – en skáldsagan er einmitt ádeila á þetta samfélagsástand. Pétur flýr líf sitt í Reykjavík og leitar einhvers konar lausnar eða frelsis á æskuslóðunum í sveitinni en kemst að því að ekkert er eins og það var, allt sem hann leitaði að er horfið, breytt eða dáið. Geðveiki Péturs fer stigvaxandi eftir því sem líður á og í lokin lendir hann inn á stofnun og er sprautaður niður; hið firrta nútímasamfélag tekur við honum og drepur niður alla löngun hans og getu til að flýja.

Lifandi vatnið – – –  er líklega módernískasta verk Jakobínu, bæði hvað varðar efnistök og frásagnarhátt. Skáldsagan einblínir á nútímamanninn og hinn brotna og firrta veruleika sem hann býr í og frásagnarhátturinn er þar að auki gríðarlega flókinn, margbrotinn og brotakenndur. Blandað er saman ýmsum frásagnaraðferðum og mörgum textagerðum, þar birtast einræður, dramatísk eintöl, samtöl og jafnvel fréttatilkynningar og verkið í heild er mikið púsluspil. Aðalpersónan Pétur fær stundum sjálfur að segja frá, stundum miðlar sögumaður frásögninni en oft er einnig erfitt að átta sig á hver talar.

Bókin hefst á eftirfarandi orðum:

Hlustaðu á, ég bið þig, ruglaðu mér ekki saman við aðrar persónur í verki þínu. Ég er nokkuð sérstakt, ég er ég, týndur maður, ég, gættu þess. Láttu mig halda sérkennum mínum, sem greina mig frá Gunnu og Imbu, Jóni og Sigurði og öllum hinum. Eitthvert einkenni verð ég að fá, sem sannar einstaklingseigind mína, mig, eitthvað sem enginn annar getur tileinkað sér. Glutraðu mér ekki saman við aðrar persónur, ég bið þig, haltu mér sér með mína kosti, mína galla, mig. Mundu, að ég er aðalpersóna: ég. Verk þitt stendur og fellur með mér. Hvað værir þú án mín? (bls. 9)

Þegar Pétur er á leiðinni í rútunni er sagt svo frá:

Trúlega hefur sigið á mann mók. Allt í einu glaðvaknar maður, því að hjól bílsins snúast ekki lengur og farþegarnir eru flestir risnir úr sætum og mynda þvögu umhverfis bílstjórann. Og það undarlega hefir skeð, það sem hlaut að ske: sessunauturinn hefur skipt um sæti við týndan mann. Einhversstaðar á leiðinni hefir það gerzt, því nú situr maður við gluggann og getur skyggnst út. Það lítur út fyrir að orðið sé aldimmt. Og þó er ekki komið á leiðarenda. (bls. 74)

Og þegar líða tekur að sögulokum snýst frásögnin upp í ávarp:

Einhverntíma á óþrotlegri göngu þinni verður þér snögglega ljóst, að þig hefir borið af leið. Undir fótum þér er enginn vegur lengur. Þú staðnæmist. Þú þurrkar af þér svita, móður eftir gönguna á bratta heiðarinnar. Þú rýnir í grámann umhverfis þig og veizt að þú hefir glatað áttunum. Skimar. Undrast ekki. Og í seilingarfjarlægð stendur förunautur þinn úr langleiðabílnum og glottir með augu í hnakkanum. Glottir þínu glotti með þitt andlit á hnakkanum. Hrollur fer um þig, en þú undrast ekki. Þú veizt að sá sem mætir sjálfum sér er feigur, en þú skelfist ekki. (bls. 140)

 

Í sama klefa

I sama klefa

Í fjórðu skáldsögu Jakobínu, Í sama klefa (1981), segir frá rithöfundi, konu sem stritar við að skrifa bók sem á að uppfylla kröfur lesenda sem og bókmenntastofnunarinnar, í og með til að fá launavíxil frá ríkinu og þar með salt í grautinn. Skáldkonan er sögumaður Í sama klefa og ávarpar oft og tíðum söguáheyranda/lesanda og deilir með honum rithöfundarraunum sínum en henni er mjög umhugað um að form bókarinnar standi undir væntingum:

En allt í einu minntist ég þess, að margir spekingar hafa sagt og skrifað að bók sé ósönn og ekki Góð Bók nema hún sé skrifuð í fyrstu persónu. Mér krossbrá. Góða Bókin mín er, – var – í þriðju persónu. Breyting hugsanleg? Vissulega, nema vegna þess að aðalpersóna (fyrsta persóna) átti að deyja í sögulok og ýmislegt að gerast eftir það. Þá þarf einhver að koma með eftirmála. Í Góðri Bók stóð höfundur (ég) álengdar og horfði skyggnum augum á persónur, umhverfi og atburði. (Finnst þér þetta of háfleygt orðalag?) […] Vitanlega er hægt að skrifa bók í þriðju persónu. Góða Bók. En hvort sem Góð Bók er skrifuð í fyrstu eða þriðju persónu, þá verður hún aldrei Marktækt Hugverk ef höfundurinn er nokkursstaðar nærri, hvort heldur er álengdar eða inni í miðju verki. (7-8)

Í þessum kafla felast heilmiklar vangaveltur um frásagnarfræði, sem og viðtökur lesenda og gagnrýnenda. Með öðrum orðum, Í sama klefa fjallar meðal annars um þær kröfur sem gerðar eru til rithöfunda og þær kröfur sem þeir gera til sjálfra sín.

Á endanum gefst skáldkonan upp á því að skrifa Góða Bók því önnur saga verður henni hugleiknari. Hún skrifar bók um konu sem hún varð samferða á skipi 30 árum fyrr en saga konunnar, Sölu, rifjast upp fyrir skáldkonunni þegar hún fréttir af andláti hennar.  Efnið tekur völdin af sögukonunni og hún hættir að reyna að uppfylla þær kröfur um formleg gæði bókmennta sem hún lýsir í kaflanum hér að framan. Þess í stað viðurkennir hún að:

Bókin um hana verður aldrei Góð Bók, þó hún sé að mestu skrifuð í fyrstu persónu að því er virðist. Á vissan hátt mætti segja að hún sé skrifuð í fjórðu persónu, en sú persóna er ekki til eins og þú veizt. Og höfundurinn (ég) er allsstaðar fyrir í bókinni um Sölu. En þetta þarf ég ekki að segja þér. (bls 10)

Smátt og smátt verður ljóst að bókin um Sölu er einmitt bókin sem lesandinn heldur á í höndunum, Í sama klefa, sem er þar af leiðandi sjálfsaga eða sjálfhverf skáldsaga þar sem hún fjallar um eigin tilurð.

Sögukonan og Sala eiga ýmislegt sameiginlegt þótt þær séu einnig afar ólíkar og Í sama klefa fjallar um hvernig líf þeirra og örlög kallast á og eru kannski þegar upp er staðið afar svipuð. Báðar eru þær konur í karllægum heimi, báðar hafa þær búið í afskekktri sveit á Vestfjörðum, sögukonan er fjárhagslega háð ríkinu og lesendum líkt og Sala er háð manni sínum og hvorug þeirra er þar af leiðandi fullkomlega frjáls. Þótt sögukonan hafi hvorki gifst né eignast börn en Sala hafi verið í óhamingjusömu hjónabandi og eignast börn má sjá ákveðnar hliðstæður milli Góðrar Bókar og fatlaðs sonar Sölu.  Sögukonan líkir Góðri Bók, sem hún kláraði aldrei að skrifa, við „ófullburða barn í fósturkassa“ sem skortir lífsorku (bls. 10) og handritið á það sameiginlegt með fatlaða drengnum hennar Sölu að hvorugt uppfyllir kröfur samfélagsins.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s