Kvæði

Kvædi

Ljóðabókin Kvæði kom fyrst út árið 1960 og ný og aukin endurútgáfa þeirrar bókar leit dagsins ljós árið 1983. Í Kvæðum er að finna safn ljóða sem Jakobína orti við ýmis tækifæri, svo sem pólitísk ádeiluljóð sem beint er gegn hersetu og afskiptaleysi almennings, erfi- og afmælisljóð og ýmis kvæði sem tjá hugsanir og tilfinningar sem bærast í huga skálds sem er bóndakona og móðir að aðalatvinnu þótt hugurinn leiti oft annað og þrái meira.

Í formála að endurútgáfu Kvæða árið 1983 segir Jakobína um ljóðin sem bættust við í þeirri útgáfu:
„Samt eru þessi kvæði með sama marki brennd og hin fyrri: Þau heyra til mínu æviskeiði, minni lífsskynjun, hvort heldur um er að ræða svokölluð „einkamál“ eða viðhorf til atburða umheimsins. Þau eru ekki ort til að þóknast einum né neinum. Og ekki að annarra óskum. Ég er ekki að biðja neinn afsökunar á þessu, heldur vona ég að þeir, sem kynnu að lesa þessi kvæði, ímyndi sér ekki að hér sé einhver „klassík“ á ferðum. Hér er aðeins ég, og um það hef ég ekki meira að segja.“ (bls. 5)

Hvað tefur þig bróðir?

Eitt magnaðasta ádeilukvæði Jakobínu er „Hvað tefur þig bróðir?“, sem hún orti árið 1955, en þar kemur skýrt fram andúð skáldkonunnar á þeim löndum hennar sem létu sér vel líka eða skiptu sér ekki af því að erlendur her hefði bækistöðvar víða um land.

(brot)

Hvað tefur þig bróðir? Á tindunum sólskinið logar.
Af tárum er risin sú glóð.
En smánin í blóði mér brennur. Þú veizt hvað sá heitir,
sem bregzt sínu landi og þjóð.
Þú veizt hvað ég meina, því moldin og steinarnir hrópa.
Ó, mundu þau dómsorðin hörð.
Þú verður að má þennan blett, því að börn okkar vaxa.
Þeim ber þessi hrjóstruga jörð.

Við þekktum það fyrri, að reimt var á Reykjanesskaga,
en ræðum nú færra um það.
Hvað veldur því, bróðir, að vangi þinn roðnar af blygðun
ef varirnar nefna þann stað?
Og nær urðu Þórshöfn og Aðalvík ógæfustaðir?
Hver átti að standa þar vörð?
Og Hornafjörð manstu. Er helgi lands þíns ekki flekkuð?
Og hver hefur svívirt þá jörð?

Vökuró

Frægasta kvæði Jakobínu á alþjóðavísu er þó vafalaust „Vökuró“ en söngkonan Björk söng lag Jórunnar Viðar við það inn á plötuna Medúllu árið 2004. Lagið má heyra hér. Eins og sjá má og heyra er tónninn í þessu ljóði undurblíður og ólíkur baráttuandanum sem birtist hér að ofan.

(brot)

Langt í burt
vakir veröld stór,
grimmum töfrum tryllt,
eirðarlaus,
óttast nótt og dag.
Augu þín,
óttalaus og hrein,
brosa við mér björt.

Vonin mín,
blessað brosið þitt,
vekur ljóð úr værð.
Hvílist jörð
hljóð í örmum snæs.
Liljuhvít
lokar augum blám
litla stúlkan mín.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s