Endurminningar

I barndomiÍ barndómi (1994) er bók um æskuminningar Jakobínu frá Hælavík á Hornströndum – en þar fæddist hún og ólst upp eins og kemur fram hér. Bókin er þó ekki hefðbundin sjálfsævisaga því frásögnin er sviðsett og stílfærð. Sögukonan sem segir frá raðar saman minningabrotum sem hún setur fram í formi nokkurs konar ferðasögu. Hún líkir upprifjuninni við ferðalag og heimsækir bernskuheimili sitt þar sem hún sér fjölskyldu sína og sjálfa sig sem barn. Þessi gamla kona er ónafngreind og í raun segir einungis samhengi bókarinnar, markaðssetning og vitneskja um höfundinn okkur að þetta sé sjálfsævisaga. Frásögnin er ólík hefðbundnum ævisögum þar sem greint er frá minningum og æviþáttum í tímaröð og ef bókin væri ekki í þessu samhengi væri hún að öllum líkindum einfaldlega talin skáldsaga. Í barndómi getur því talist til bókmennta sem kallaðar hafa verið kallaðar skáldævisögur.

Heimsókn á æskuslóðir

Í Í barndómi er upprifjunarferli hugans ekki einungis sett fram sem ferðalag heldur kemur í ljós að sögukonan hefur ekki fulla stjórn; hún kemst ekki hvert sem er. Flestir lesendur þekkja að minningar okkar mynda ekki eina samfellda heild nema við leggjum okkur eftir því að púsla þeim saman. Minningarnar eins og þær birtast okkur fyrir hugskotssjónum eru brot, myndir og stutt myndskeið og tíminn þurrkar út meira en við munum. Í þessari bók tekst Jakobínu einstaklega vel að varpa ljósi á það ferli sem endurminningar eru og útkoman er hjartnæm og falleg lýsing á hugarheimi gamalli konu sem langar að muna allt – en getur bara munað sumt.

Trúlega er allt að því áratugur eða meir liðinn síðan ég reyndi að komast þangað í heimsókn, treystandi á minni, sem ég fram að þeim tíma hugði sjálfsagt og óbrigðult. Hugsaði mér að ég væri að koma til Hælavíkur úr fjarveru í heimsókn til foreldra og systkina […] Af Árholtinu horfði ég heim að bænum, enn var hann á sínum stað, já, hlaðið með ræsinu blauta frá fjósdyrunum fram á hlaðvarpann og öskuhauginn, plankar hálffúnir til að stiklast á nokkurn veginn þurrum skóm yfir þetta ræsi sem mér var alltaf fremur kalt til. Bæjardyrnar inn til pabba og mömmu á sínum stað, klinkan í útidyrahurðinni hin sama og áður, – og ég gekk inn. En þá – þá rataði ég ekki lengra. Og þá varð mér ljóst að þessi bær og ég vorum að vísu í tímanum, en ekki í sama tíma. (bls. 5)

Sögukonan gerir sér grein fyrir að hún getur ekki haldið af stað í ferðalag á bernskuslóðir án þess að fá hjálp við að endurreisa bernskuslóðirnar og hana fær hún hjá þeim í fjölskyldunni sem eftir lifa.

[S]ystkini mín og frændfólkið, gamli hópurinn frá Hælavík, sem dvöldust þar lengur en ég, þau hlutu að muna betur. Til þeirra leitaði ég og til Þórleifs frænda. En þeim var líkt farið. Og þó, – einn rataði um ákveðna hluta bæjarins, annar um aðra. Þannig tíndust til brot eitt af öðru, smáhlutar eins og í púsluspili. Vandinn hinn sami, að raða þeim rétt saman svo að úr yrði heil mynd. Þetta er ég enn að berjast við, veit að myndin verður aldrei alveg fullkomin, aldrei framar mun ég rata um þennan bæ, aldrei koma brotunum svo saman, að myndin verði heil og rétt. Samt get ég ekki hætt. (bls. 6)

Síðan heldur hún aftur af stað. Hún tekur í klinkuna á útidyrahurðinni, opnar og stígur inn, gengur um bæinn, virðir fyrir sér fólk, hluti og sér minningar í formi stakra mynda eða myndskeiða hér og þar. Hún sér sjálfa sig á ýmsum aldri, minningarnar tengjast gjarnan herbergjum hússins, þær birtast ljóslifandi öðru hverju eftir því sem sögukonan fetar sig áfram. En hún finnur heldur ekki allt sem hún leitar að í þetta skiptið.

Rata ég fram til þeirra? Ég heyri að í eldhúsinu er masað og hlegið. Mamma er að elda kvöldmatinn og allir komnir inn til að borða. […] Ég lyfti hleranum hægt, svo ekki reyni um of á leðurhjarirnar, opna og feta mig niður stigahöftin. […] Neðan við stigann staldra ég við. Bíð. Veit að við erum þarna í eldhúsinu að borða kvöldmat. Ég er þar líka og svara spurningum foreldra minna um sumardvöl mína í fjarlægum landshluta. […] En ég næ ekki til okkar. Grátbæni tímann: „Þokaðu úr lokunni,“ – aðeins andartak […]. (bls. 16)

Alla bókina leitar hún að eldhúsinu og fleiri stöðum og hlutum sem hún finnur ekki, tíminn reynist henni erfiður og stundum rekst hún á erfiðar minningar. Ferðalagið er því ekki eintóm hamingja.

Hvers vegna er ég hér að reyna að rata um þennan bæ? Villast. Bið tímann, grátbið: Þokaðu úr lokunni –. Hvers vegna? – (bls. 59)

Gömul kona situr á neðsta stigahaftinu og grátbiður tímann: Ljúktu upp fyrir mér eldhúsinu hennar mömmu, aðeins andartak, svo ég geti séð það eins og það var eftir að eldavélin kom og pabbi innréttaði það. Ég er þar. Við erum þar öll. Æ, ljúktu upp, svo ég komist þangað áður en það verður of seint. (bls. 74)

Tengsl við skáldsögurnar

Í barndómi tengist fyrri bókum Jakobínu sterkum böndum hvað varðar efnistök, sér í lagi síðustu skáldsögunum. Frásögnin af bernsku Péturs í Lifandi vatninu – – – er mjög tengd bernskuheimi Jakobínu í Í barndómi. Bæði fara þau til dæmis í ferðalag á bernskuslóðir, annað í huganum en hitt með rútu, og aðferðina sem Jakobína notar til að segja frá minningum í Í barndómi má rekja allt til Lifandi vatnsins – – –. Sögumaður Lifandi vatnsins – – – býr til bernskuheim og stillir þar upp ungum Pétri á keimlíkan hátt og sögukonan gamla gerir í Í barndómi. Sögumaður Lifandi vatnsins – – – fer reyndar ekki sjálfur í ferðalag inn í bernskuheiminn en hugmyndin um að fortíðin sé ákveðið tímarými er sú sama:

Einhversstaðar, langt inni í bernskunni, tyllir hann sér á tá upp við grasigróinn vegg í túninu, hvílir olnbogana á veggnum, styður hönd undir höku og horfir langt, langt inn í himinn. (Lifandi vatnið – – –, bls. 36)

Þar að auki talar sögukonan í Í barndómi um sig bæði í 1. og 3. persónu og minnir það óneitanlega á frásagnaraðferð Lifandi vatnsins – – –.

Einnig hefur Dagný Kristjánsdóttir minnst á bæjarlækinn sem rennur í gegnum bæinn í Hælavík í bernskuheiminum í Í barndómi og tengsl hans við titil og efni Lifandi vatnsins – – –. Systurnar í Hælavík sækja vatn handa veikri móður sinni í lækinn á miðnætti á þrettándanum því þá breytist allt vatn í heilagt vín sem læknar sjúkdóma, líkt og Jakobína sagði eitt sinn í viðtali. Í Lifandi vatninu – – – og Í sama klefa er líka bæjarlækur sem tengist hringrás lífs og dauða. Þótt vatnið sé lifandi og heilandi getur það nefnilega líka verið eyðandi því að fatlaði drengurinn hennar Sölu í Í sama klefa dettur í bæjarlækinn og er hætt kominn. Lifandi vatnið – – – dregur nafn sitt af læknum sem rennur hjá bernskuheimili Péturs en í honum eru djúpir hylir sem eru hvort tveggja í senn fullir af spriklandi fiskum og lífshættulegir litlum drengjum; í þeim er „lifandi vatn“ sem getur hæglega snúist upp í andstæðu sína því það hefur seiðandi og lífshættulegt aðdráttarafl. Í borginni er ekkert lifandi vatn og þar er Pétur meira dauður en lifandi og þess vegna reynir hann að snúa aftur heim, segir Dagný (Dagný Kristjánsdóttir. 2006. Íslensk bókmenntasaga IV, bls. 635).

Bæði Dagný og Ástráður Eysteinsson hafa einnig bent á hve áberandi leiðarstef snjór er í verkum Jakobínu, einkum þeim síðari. Snjórinn og hafísinn og öll sú ógn sem þeim fylgir tengist hræðslu og dauða í huga hinnar ungu Jakobínu í Í barndómi og Pétur í Lifandi vatninu – – – hugsar um snjóflóð sem hefur eytt bóndabæ og flutt hann á haf út. Snjórinn er enn fyrirferðarmeiri í Í sama klefa og Sölu er hann mjög hugleikinn; hjá henni tengist snjór innilokun og einangrun, kulda og yfirvofandi hungri (Dagný Kristjánsdóttir. 1997. „Þögnin í orðunum. Um skáldsögur Jakobínu Sigurðardóttur.“ Tímarit Máls og menningar 58,1, bls. 60–63). Sögukonan kannast einnig við snjóinn því hún ólst upp á Vestfjörðunum, líkt og Jakobína sjálf.

Af fyrrgreindum atriðum má sjá að þótt Í barndómi sé hin opinbera endurminningabók Jakobínu byrjaði hún mun fyrr að nota bernsku sína og æviminningar í verkum sínum.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s